Leikfélagið Draumar

Leikfélagið Draumar

Hver erum við?

Draumar voru stofnaðir 2009 af þeim Ragnheiði Dísu Gunnarsdóttur og Torfa Geir Símonarsyni. Sumarið 2025 verður sautjánda sumar Drauma.

Draumar sérhæfa sig í Söngleikjanámskeiðum sem samanstanda af dans, söng og leiklist. Fyrstu fjórtán sumarannirnar fóru námskeiðin fram í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ en frá 2023 hafa þau farið fram í Sjálandsskóla í Garðabæ. 

Frá stofnun Drauma hafa yfir 3500 börn sótt námskeiðin okkar. 

Lokasýningar námskeiðanna hafa það orð á sér að vera stórglæsilegar en ekkert er sparað til hvað varðar útlit sýninganna, búninga, förðun, ljós og hljóð.

 
Draumakrakkar
0

Gildin okkar

Starfsfólk Drauma vinnur eftir þremur megingildum.

Í fyrsta lagi gleði, en að okkar mati skiptir miklu máli að bæði starfsfólki og nemendum líði vel og hafi ánægju af starfinu. Í öðru lagi mikilvægi, en við leggjum áherslu á að hvert barni upplifi sig sem mikilvægt og finni að það hafi rödd sem hlustað er á. Í þriðja lagi persónulegur styrkur.

Öll börn búa yfir styrkleikum á einhverju sviði og það er hlutverk okkar, foreldra, leiðbeinenda og kennara, að draga þá styrkleika fram og efla þá.

Við hjá Draumum reynum að byggja upp trú barnanna á eigin getu og kalla fram hæfileika sem þau jafnvel vita ekki fyrir að séu til staðar.

Þetta síðasta gildi er einnig grundvöllur þess að halda úti starfi af þessum toga, en það er mikilvægt að val á námskeiðum og tómstundum sé fjölbreytt svo öll börn fái tækifæri til þess að finna sig í því sem þeim líkar svo þau fái að blómstra.

Rannsóknir á leiklistar- og söngleikjastarfi benda til margvíslegra áhrifa sem slíkt starf getur haft á börn. Til dæmis má nefna meira sjálfstraust, öruggari framkomu, bætta samskipta- og félagsfærni, meiri samkennd með og umhyggju fyrir náunganum, færni í tilfinningastjórnun og meiri trú á því að þau geti haft áhrif á umhverfi sitt. Auk þess hafa fundist tengsl milli þátttöku í sviðslistum og minni neyslu áfengis á unglingsárum, ásamt minni líkum á að upplifa einkenni kvíða og þunglyndis.

Fólkið okkar

Á hverju sumri hittist hópur öflugra einstaklinga sem standa að baki námskeiðum Drauma. Flestir starfsmenn eru með okkur í Draumaleikhúsinu mörg ár í röð þó einhverjir stoppi stutt við. Við höfum verið einstaklega heppin með hversu margir frábærir einstaklingar hafa starfað með okkur í gegnum árin.

Á fyrstu námskeiðunum árið 2009 voru það aðallega Heiða og Torfi Geir sem stóðu á bakvið starfið og fengu til liðs við sig tvo öfluga starfsmenn sem voru með fyrsta sumarið. Fljótlega bættist Þóranna, systir Heiðu, við liðið sem lykilmanneskja og hefur verið með okkur á  á hverju sumri síðan. Þess má geta að Þóranna var nemandi á fyrsta Drauma námskeiðinu. Árið 2016 bættist Hrafnhildur Magney, systir Heiðu og Þórönnu, við af fullum krafti og varð fjórða hjólið undir bílnum.

Starf Drauma er keyrt áfram af systrunum þremur, einum maka og auðvitað allri fjölskyldunni í kringum þau sem hjálpa til að ýmsu leiti, ekki síst að passa Drauma-börnin fjögur sem hafa bæst við hjá systrunum síðan Draumar voru stofnaðir. 

Systurnar hafa skipt með sér verkum nokkurn veginn þannig að Heiða er framkvæmdastjórinn okkar, sér um leikstjórn og tæknimál, keyrir áfram sýningar og lætur allt ganga upp á stóra sviðinu ásamt því að halda daglegum rekstri og öllu skipulagi gangandi. Hrafnhildur sér um mannauðinn, peppar starfsfólkið og lætur öllum líða vel, raðar starfsfólki í aukahlutverk í sýningum, tekur myndir af börnunum og býr til kynningarmyndbönd ásamt því að semja flest stór dansatriði og kenna þau – enda fimleikadrottning frá fjögurra ára aldri. Þóranna er svo tónlistarséní-ið okkar, sér um að útfæra öll lög og taka þau upp með og án söngs svo nemendur geti hlustað og lært utan af, semur nær alla söngtexta og skapar stóru söngatriðin fyrir sýningarnar ásamt því að kenna söng, leikstýra og spilar meira að segja undir á leikskólanámskeiðum. Í bakvinnslunni er svo Torfi Geir sem sér um skráningar á námskeiðin, smíðar sviðsmyndir og setur upp ljós og græjar allt annað sem kann að koma upp. 

Ekkert af því sem þetta kjarnateymi gerir væri þó möguleiki án þess frábæra starfsfólks sem við fáum til liðs við okkur á hverju sumri eða án aðstoðar frá fólkinu í kringum okkur sem hleypur til þegar þörf er á, hvort sem það er til að flytja timbur, selja boli, passa upp á yngstu nemendurna, föndra eldfjall eða hvað sem það er. 

Draumakrakkar
0
Nemendur 2024
0
Míkrafónar
0 +
Hreyfiljós
0

Algengar spurningar

Hvernig virkar þetta?
Hvenær opnar skráning á námskeiðin?

Skráning á námskeiðin hefst yfirleitt í kringum mánaðamótin febrúar/mars ár hvert. Alla jafna er mikill atgangur og mikil aðsókn og mörg námskeið seljast upp strax og skráning hefst. Þetta á ekki síst við um námskeið sem fara fram fyrri hluta sumars.

Við bjóðum upp á námskeið fyrir börn frá 5-13 ára.

Það er mismunandi hve margir eru á hverju námskeiði og fer það eftir aldri barna. Á námskeiðum er skipt niður í 5-6 manna hópa sem fylgjast að í gegnum námskeiðið. Með því að stilla fjölda í hóf og hafa hópana ekki stærri pössum við að gæði námskeiðanna haldist í lagi og að öll börn fái tíma, athygli og pláss.

Já! Lokasýningar eru opnar öllum. Hvert barn fær tvo boðsmiða á lokasýningarnar en foreldrar og gestir geta keypt auka miða við innganginn.

Draumar eru staðsettir í Garðabæ, heimabæ eigendanna og sveitarfélagið Garðabær styður við starfsemina á margvíslegan hátt.